Loading

VIÐ SKULUM ALDREI GLEYMA AÐ ÞAKKA FYRIR OKKUR!

Við skulum aldrei gleyma að þakka fyrir okkur!

Nú er ég búin að liggja sængurleguna á Selfossi í fimm daga og farin að haga mér hér eins og heima hjá mér. Hversu frábært er það?? Það er ekki oft sem sængurkonur fá tækifæri til þess að jafna sig jafn vel eftir fæðingu og kynnast nýburanum sínum í algjörri ró og næði. Þetta eru algjör forréttindi sem við konur á landsbyggðinni fáum að njóta og hvet ég allar konur sem tækifæri hafa til að gera slíkt hið sama, sérstaklega konur sem eiga stóra fjölskyldu sem bíður heima með eftirvæntingu.

Ljósmæðurnar hér á HSU hafa veitt mér algjöra prinsessumeðferð og eru bara hreint út sagt yndislegar í alla staði. Ef ekki væri fyrir snögg viðbrögð þeirra og Bjarna míns hefði ég sennilega látið brjóstagjöfina ganga mun lengra, en með hjálp þeirra og sannfæringu tókst mér að taka rétta ákvörðun. Það sem meira er, ég sé ekki eftir þessari ákvörðun og er þeim og Bjarna mínum ævinlega þakklát! Í dag ætla ég heim í alvöruna og takast á við lífið eins og það er í raunveruleikanum enda ekki hollt að haga sér eins og prinsessa í marga daga í röð. Næstu vikur munu eflaust snúast um mjaltir og meiri mömmuleik enda ekkert eins skemmtilegt eins og að fá að fylgjast með börnunum sínum, vaxa, þroskast og dafna. Fimmta barnið er fætt inn í þessa stórskemmtilegu og fjölbreyttu fjölskyldu og má svo sannarlega segja að við Bjarni séum með ríkustu foreldrum í heimi.

 

Elsku Sigrún, Sigga, Kristín, Dagný, Björk, Gulla og Inga. Takk fyrir alla hjálpina og ráðleggingarnar og viljann til þess að láta mér ganga og líða betur. Þið eruð frábærar í ykkar starfi og eigið svo sannarlega hrós skilið. Þið gerðuð það að verkum að ég geng héðan úthvíld, súper hress og algjörlega tilbúin til þess að takast á við lífið og tilveruna.

 

–  –  –

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu.

Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi  og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja.

Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.

<em>Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson</em>

X