Loading

VILDI GEFAST UPP!

Ég var mjög sein til að læra að lesa og man að ég þurfti að mæta í einhverja tíma hjá sérkennara. Ég man að mér voru sýndar myndir af þyrlu og var nafnið svo undir myndinni, en það var orð sem ég gat alls ekki sagt. Svo kom þetta smásaman og það get ég meðal annars þakkað Ingu Andreassen. Ég veit nú að hennar stuðningur var mikill. Með þrjósku og þrotlausri vinnu komst ég í gegnum námið, náði prófum og var meðalnemandi. Sérstaklega gekk mér illa að læra tungumál og þrátt fyrir að sækja einkakennslu út í bæ, dugði það skammt.

Unglingadeildin reyndist mér erfið og einkunnum tók að hraka. Á þessum tíma fór ég að trúa því að ég væri heimsk, gæti ekki lært og myndi aldrei ná að ganga menntaveginn. Ekki bætti úr skák að á þessum árum varð ég fyrir einelti og sjálfstraustið lítið. Það var sama hve vel og mikið ég lagði á mig við að læra ensku, ekkert sat eftir.

Fyrir nokkrum dögum las ég viðtal við Dorrit forsetafrú þar sem hún ræðir m.a. um eigin glímu við ofvirkni og athyglisbrest – ADHD. Þar rakst ég á setningu hjá henni sem ég gat fullkomlega samsamað mig við: „Ég les eina setningu og hún hverfur úr minni mínu.“ Þetta er nákvæmlega eins og ég upplifði tungumálanámið mitt: Ég les og les, þýði og þýði en það er eins og allt hverfi úr minninu jafnóðum!

Það var ekki fyrr en ég kom í framhaldsskóla að ég fékk greiningu á þessari skerðingu minni til að lesa eða skrifa prentað mál – greininguna lesblindu eða dyslexíu. Að vissu leyti var þessi vissa léttir, en hafði þó ekki þá breytingu í för með sér að ég hætti að trúa að ég gæti nokkurn tímann lokið námi í framhaldsskóla − hvað þá að ég ætti eftir að fara í háskólanám. Ég fór að velta fyrir mér að ef til vill myndi ég ráða við eitthvert iðnnám. Þá yrði tungumálabaslið úr sögunni og ég væri hvort sem er svo heimsk að ég kæmist aldrei í gegnum það. Ég hafði hins vegar engan áhuga á að fara í hárgreiðslu eða annað iðnámi.
Ég flosnaði úr skóla. Þar hafði mér ekki liðið vel − upplifði mig minni máttar og öðru vísi. Ég þóttist finna að ég átti miklu erfiðara með að læra en flestir í kringum mig.

Ég fór ung í sambúð – En ég var ekki sátt og vildi í raun ekki gefast upp. Ég var komin með heimili – mann og tvö börn. En draumurinn um að geta lært, blundaði alltaf í mér og ég hóf nám að nýju, með mikilli þrautseigu samt. Ég tók einn til tvo áfanga á önn í fjarnámi og í kvöldskóla. Þegar ég var 27 ára var ég komin með 100 einingar á framhaldskólastigi. Á þessum tíma hafði ég öðlast nógu mikið sjálfstraust til að sjá að háskólanám var ekki aðeins fjarlægur draumur, heldur raunhæfur möguleiki.

Árið 2004 varð draumurinn að veruleika. Ég sótti um nám við Kennaraháskóla Íslands í tómstunda- og félagsmálafræði. Ég var sest á háskólabekk nokkrum vikum síðar, skrítin en raunveruleg tilfinning. Á fyrsta árinu lærði ég heilmikið um ADHD. Ég var þá fljót að átta mig á að sjálf hefði ég alltaf verið ofvirk. Athyglisbresturinn háði mér verulega í náminu og mig grunar að bæði kennarar og samnemendur mínir hafi fyrir löngu verið orðnir þreyttir á mér. Ég gafst þó ekki upp og þau ekki heldur. Ég leitaði til sérfræðings og fékk þá greininguna ADHD, þá 29 ára gömul. Fjögurra ára háskólanámi í fjarnámi lauk ég svo árið 2008 með einkunninni A. Mér fannst sem kraftaverk væri að gerast. Ég á Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektor við HÍ, mikið að þakka. Sú þolinmæði, hvatning og skilningur sem hún og samnemendur mínir sýndu mér, hélt mér gangandi í náminu. Þrátt fyrir lesblindu, athyglisbrest og ofvirkni var ákveðið markmið í nánd. Ég gat þetta!

Vilji og þrautseigja er allt sem þarf! Við, sem erum með námserfiðleika, þurfum vissulega að leggja meira á okkur við námið en aðrir. En með vilja og von í farteskinu getum við látið óskir okkar rætast. Þrátt fyrir námserfiðleika erum við síður en svo minni manneskjur. Sá styrkur og kraftur sem þarf til að ná settu marki, er, þegar upp er staðið, góð reynsla og gott veganesti út í lífið..

Þegar þetta er skrifað er ég rétt staðin upp frá síðasta prófi í MA-námi í uppeldis og menntasálfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Nú er ekkert eftir nema lokaritgerðin! Og hver hefði trúað því fyrir tuttugu árum? Ekki ég.
Skilaboð til ykkar sem eigið í námserfiðleikum er því: Aldrei gefast upp!

– – –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X