Loading

VILTU AÐ BARNIÐ SÉ VANNÆRT?

Fyrsta barnið, fyrsta fæðingin, fyrsta eftirlitið.

Að eignast sitt fyrsta barn er … svo margt. Það á líka að vera svo margt. Meðgangan á að vera ekkert mál, fæðingin sjálf jafnvel minna mál, brjóstagjöfin „easy peasy“ – já og auðvitað á að vera með barnið á brjósti … og þrátt fyrir nokkuð örugg aðlögunarvandamál að nýju lífi fyrir bæði barnið sjálft og foreldrana þá á þetta allt að vera svo dásamlegt! Já en … þetta er bara ekki alltaf svona, alls ekki. Þá væri ekkert fæðingarþunglyndi, vanlíðan, þreyta og fleira. Sem betur fer er þetta lang oftast að mestu leiti dásamlegt en það koma dagar og stundir þar sem það er ekki svo og þá verðum við að mega segja frá því. Munum það.

Ég átti mitt fyrsta barn fyrir bráðum 12 árum og sú meðganga hefur verið afgreidd í skrifum hér, hún var enginn dans á rósum. En, dásamleg barnið sem við fengum var stúlka uppá 14,5 merkur og 48,5cm, lítill mjúklingur. Svo falleg og fín, með fullt fullt fullt af hári. Svo mikið og sítt að hún fór heim með litla fléttu eftir ljósurnar.

Ég fór svo að fara í ungbarnaeftirlit hjá ljósmóðurinni sem ég var hjá á meðgöngunni. Hún var af gamla skólanum og var algjört yndi. Dásamlega Guðbjörg. Ég naut þess alltaf að hitta hana og spjalla, alltaf hafði hún allan tímann í heiminum og mér leið eins og ég væri eina konan sem hún væri að þjónusta. En, svo þurfti Guðbjörg að fara í frí þegar litla dúllan okkar var líklega fjögurra vikna og ég mætti í eftirlit með barnið mitt. Hún hafði lést örlítið, örlítið. Leit annars vel út og var stanslaust á brjósti, og mátti það bara alveg. En, ljósan sem ég hitti á var ekki alveg sátt … ekki beint. Ég fékk ræðuna „hún er bara búin að léttast … svona mikið … er hún ekki að fá neitt … hvað drekkur hún mikið á dag … [mér er enn hulin ráðgáta hvernig maður mælir það] … hún gæti nú bara farið að vera vannærð … viltu það … veistu hvað getur gerst … í versta falli getur hún dáið, heiladauði getur orðið af vannæringu …“ Já, hún sagði þetta í alvörunni! Einhvern veginn kláraði ég þessa heimsókn með útskýringum á slöngugræju fyrir ungbarnamjólk til að gefa henni ábót þegar hún væri að drekka þannig að ég mundi nú ekki drepa barnið mitt af vannæringu !! Ég fæ enn tár í augun þegar ég hugsa um þetta.

Leiðin lá rakleitt í næsta apótek þar sem ég keypti flöskuna/aukabrjóstið og mjólk og svo rakleitt heim. Þar hringdi ég hágrátandi í manninn minn og sagði honum að barnið okkar mundi kannski deyja af vannæringu! Hann kom heim úr vinnunni … eitthvað var ég kannski grunsamleg í símanum. Ég grét og grét og gat ekkert annað. Svo fór ég að æfa mig með að gefa ábótina … það var nokkuð skondið, eftir á, með allar þessar snúrur og drasl út um allt. En, daman drakk og drakk, eins og áður. Mamman grét og grét.

Um viku eða tíu dögum seinna hringdi síminn … Guðbjörgin okkar var komin úr fríi og vildi bara heyra í mér. Og ég grét í símann og sagði henni allt ! Henni tókst að róa mig, ótrúleg þetta yndi. „Anna mín, elskan mín, þetta verður allt í lagi. Þetta gerist svo oft og þarf engan veginn að vera neitt óeðlilegt. Nú skaltu draga fyrir, slökkva á símanum, setja kannski bara miða í gluggann um að trufla ekki, drekka heitt te, horfa á eitthvað sem lætur þig hlæja eða hlusta á eitthvað skemmtilegt, reyna að slaka á og gefa henni án ábótar. Þetta kemur. Gefðu henni bara eins oft og hún vill og þá eykst mjólkin aftur því hún getur hafa dottið niður við þetta allt saman … já og fyrirgefðu mér að hafa farið í frí á svona ómögulegum tíma …“
Ég fór eftir ráðum Guðbjargar og þetta varð sko allt í lagi. En, ég gleymi þessu ALDREI!

Annað ráð gaf hún okkur sem ég geymi vel og segi öllum sem eignast börn í kringum mig „mundu svo að það er sama við hvern þú ræðir, það þekkir enginn barnið þitt betur en þú. Barnalæknir með margra ára reynslu eða margra barna móðir …. þú ert móðir þessa barns og veist best“
Heilbrigðisstarfsfólk er misjafnt eins og annað fólk, lang flest sem betur fer frábært.
– – –
Ég heiti Anna Stína og er mamma, og svo margt annað. Börnin mín eru fædd 2000, 2008 og 2010 – fyrir utan litlu englana sem hefðu átt að fæðast 2004, 2006 og 2007. Ég er menntuð sem kennari og námsráðgjafi en veit samt enn ekki hvað ég ætla að verða og er því alltaf að skoða nám. Ég er hamingjusamlega gift manni sem er kennari, kokkur og smiður. Við búum í Danmörku og finnst það dásamlegt.
Ég er að leita að námi og/eða vinnu og maðurinn minn er í skóla. Ég elska fjölskylduna og að vera með börnunum er það sem við setjum í fyrsta sæti, okkur gefst ekki tími í margt annað. Ég hlakka mikið til að fara í skóla eða vinnu en veit ekki alveg hvernig rekstur á fimm manna fjölskyldu á að rúmast á skemmri tíma en við höfum núna. Þá sef ég/við bara minna.

X