Loading

VILTU LÆRA AÐ HEKLA – MYNDBAND

Þóra-heklbók er ein mesta snilldar bók sem komið hefur út hér á landi (og þó að Foreldrahandbókin sé hjá sömu útgáfu kemur það málinu bara ekkert við). Bókin hefur selst gríðarlega vel og til að toppa sniðugheitin hafa nú verið gefin út myndbönd sem kenna fólki grunnatriðin í hekli.

Hér gefur að líta fyrstu myndböndin:

1. Haldið á nálinni

Myndbandið sýnir tvær algengustu aðferðirnar við að halda á heklunálinni – annars vegar eins og haldið er á blýanti og hins vegar eins og haldið er á hníf – en það er ekkert sem heitir rétt eða röng aðferð við að halda á heklunál þó fyrri aðferðin algengari á Íslandi.

Athugið að það hvernig haldið er á bandinu fer eftir því hvernig haldið er á nálinni. Það fer þó best á því að hver og einn finni hvernig þeim þykir best að halda á heklunálinni og bandinu. Í myndbandinu má einnig sjá hvernig mælt er með að haldið sé á bandinu, eftir því hvernig haldið er á nálinni.

2. Upphafslykkjan

Þegar hafist er handa er byrjað á því að gera upphafslykkju, sem kallast rennilykkja. Rennilykkjan er aldrei tiltekin í uppskrift heldur er það gefið að það þurfi að byrja með upphafslykkju. Þegar lykkjan er komin á nálina er gott að herða aðeins að.

Næsta skref er að gera loftlykkju með því að bregða bandinu um krókinn og draga það í gegnum lykkjuna sem er nú þegar á nálinni. Í raun er „fitjað upp“ í hekli með því að gera loftlykkjur. Mikilvægt er að hekla upphafsloftlykkjur alls ekki of fast því þá er erfiðara að hekla í þær í næstu umferð og stykkið gæti einnig verpst. Þegar lykkjurnar eru taldar telst lykkjan sem er á nálinni ekki með, heldur er
byrjað að telja næstu lykkju þar á eftir.

Hekllykkjur eru misjafnlega langar, sem þýðir að þær mynda misþykkar umferðir. Heklaðar lykkjur líta út eins og V ofan frá.

3. Keðjulykkja

Þegar keðjulykkja er hekluð er nálinni stungið í næstu lykkju, bandinu brugðið um nálina og það dregið upp í gegnum lykkjuna og líka beint í gegnum þá lykkju sem var fyrir á nálinni.

Keðjulykkja er minnsta lykkjan og því oft notuð til þess að færa bandið áfram svo lítið beri á, en einnig til að tengja saman í lok umferðar. Þá er keðjulykkja notuð þegar á að hekla snúru. Þá eru fitjaðar upp loftlykkjur þar til snúran er orðin ¹/3 lengri en þú vilt hafa hana. Síðan eru heklaðar keðjulykkjur í hverja loftlykkju á leiðinni til baka og útkoman er stórfín hekluð snúra – mun fljótlegri en prjónuð snúra.

4. Fastalykkja

Fastalykkja er næstminnsta lykkjan og mætti kalla hana grunnlykkju í hekli. Aðeins keðjulykkjan er minni en fastalykkjan.

Nálinni er stungið ofan í lykkju, bandinu brugðið um nálina og það dregið upp í gegnum lykkjuna – þá eru tvær lykkjur á nálinni. Því næst er bandinu brugðið aftur um nálina og það dregið í gegnum báðar lykkjurnar. Þá er aðeins ein lykkja eftir á nálinni og lokið hefur verið
við eina fastalykkju.

Fastalykkjur eru notaðar þegar stykkið á að vera frekar þétt og ekki með miklum götum. Fastalykkjur eru líka oft notaðar til að hekla kanta eða jafnvel hnappagöt.

Heimild: Salka.is

X