Loading

VIRKIR MORGNAR

Málshátturinn „morgunstund gefur gull í mund“ hljómar alveg ótrúlega vel, en hann gæti ekki verið meiri þversögn hér á bæ. Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að ná almennilegri stjórn á heimilislífinu virka morgna þennan veturinn. Í verstu tilfellum má jafnvel líkja þessu við ástandið á Kötlu, við það að gjósa.

Hjá 8 ára „unglingnum“ virðist allt margfalt leiðinlegra snemma morguns heldur en um eftirmiðdaginn og þrjóskan er á við tíu naut. Að fá hann til að vakna og klæða sig er eins og að fá KR-ing til að sitja Vals megin í stúkunni á úrslitaleik. Prímadonnan sem er tveggja og hálfs er reyndar ekki mikið betri hvað þetta varðar, en hana má auðveldara tala til, kostar bara smá væl.

Einhverra hluta vegna er svo þessi tæpi klukkutími frá sjö til átta, miklu fljótari að líða en allir aðrir í sólahringnum. Þetta veldur því að þegar komið er að því að drífa fólkið út, þá á allt í einu eftir að gera eða finna hundrað hluti. Klæða sig, bursta tennur, pissa, smyrja nesti, finna leikfimidótið, klæða sig í útiföt og svo framvegis. Og hvað gerist þá, jú fötin sem var búið að finna til eru ómöguleg, tannkremið er búið, leikfimidótið gleymdist í skólanum og skórnir finnast ekki. Klassík á mánudagsmorgnum. Nú erum við bara með eitt barn í skóla og eitt í leikskóla, hvernig verður þetta þá þegar þau eru öll þrjú í skóla og ég líka útivinnandi? Þetta þarf að laga.

Í draumum mínum þá væru morgnarnir sú stund dagsins sem gefur gull í mund. Þá myndu allir vakna með bros á vör og fara strax í fötin sín. Koma svo inn í eldhús þar sem ég væri búin að leggja á borð dýrindis hafragraut með allskonar súperfæði blandað út í, nú eða einn af þessum orkumiklu morgundrykkjum sem allir keppast við að setja uppskriftir af á netið. Ekki væri verra að nýkreistur appelsínusafi fylgdi með þessu öllu saman og auðvitað Lýsið góða. Eftir yndislegan morgunmat væru burstaðar tennur og svo farið í útifötin og haldið af stað í vinnu/skóla/leikskóla… aftur með bros á vör.
Hvað ætli séu margar fjölskyldur sem upplifa svona draumamorgna? Ég vildi gjarnan fá að heyra hvernig þær fara að því. Ef ég á til dæmis að búa til svona sniðuga morgundrykki og flotta hafragrauta handa öllum á morgnana þá þarf ég örugglega að vakna tveimur tímum fyrr. Það væri allt í góðu ef maður fengi einhverntíman almennilegan órofinn nætursvefn, það kemur kannski eftir nokkur ár.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég auðvitað með einfalt svar við þessu öllu saman og þið væntanlega líka, SKIPULAG. Nú er bara áskorunin að koma skipulagi á þessa óvirku morgna hjá okkur. Vakna, fara strax í fötin, borða, bursta tennur og koma sér af stað. Allt sem hægt er að undirbúa kvöldið áður verður tilbúið eins og nesti, val á fötum, leikfimidótið og fleira.
Það hefur alltaf virkað vel að vera með umbunarkerfi og nú held ég að öll fjölskyldan þurfi eitt stykki stjörnutöflu upp á ísskáp. Ég ætla ekki að gera mér vonir um að morgunstundin verði alveg eins og í draumaheiminum. Hins vegar má segja að ef allir ná að koma sér í gang án þess að hækka róminn, rífast eða fara út úr húsi með fýlusvip og enn mikilvægara, ef allir ná að borða almennilegan morgunmat, þá held ég að takmarkinu verði náð. Þá verður umbunin að fara öll saman á Yoyo einn laugardaginn og fá okkur ís. Ég læt ykkur vita hvernig gekk.

– – –
Inga Lára er ferðamálafræðingur að mennt, í fæðingarorlofi þessa stundina, í störnumerki sporðdrekans ógurlega og ætlar að verða hjúkka þegar hún verður stór.
Barnalán hennar er mikið en hún á þrjú yndisleg börn. Frumburðurinn er fæddur á Þorláksmessu árið 2003, prímadonnan er fædd í júní 2009 og kúturinn litli í júlí 2011. Einnig á hún frábæran betri helming sem er hagfræðingur fram í fingurgóma og ef það er vandamál á heimilinu þá getur hann yfirleitt leyst það í excel.

Hún elskar Mahjong og Yatzi en hatar að föndra og er í raun bara ómöguleg í öllu slíku. Það er ekki beint tími hjá henni fyrir önnur áhugamál en börnin sjálf, hins vegar á hún sér markmið fyrir árið 2012 og það er að byrja aftur að hlaupa og taka 10 km í Reykjarvíkurmaraþoninu í ágúst (helst á klukkutíma).
Lífsmottóið hennar er að reyna alltaf að sjá það jákvæða í fólki og taka bara einn dag í einu.

X